Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 94 . mál.


889. Nefndarálit



um frv. til l. um framhaldsskóla.

Frá 1. minni hluta menntamálanefndar.



    Á undanförnum árum hefur gagnrýni manna á íslenska framhaldsskólakerfið einna helst beinst að því hve illa hefur gengið að byggja upp starfsnám. Frumvarpið felur í sér ýmsar breytingar sem gætu leitt til framfara á því sviði en stefnt er að því að fjölga starfsnámsbrautum og byggja upp í nánu samstarfi við fulltrúa atvinnulífsins og auka þannig tengsl framhaldsskóla og atvinnulífsins. Ákvæði frumvarpsins skýra námsuppbyggingu framhaldsskólanna með einföldun á sviði bóknáms en um leið ætti framboð á námsbrautum að aukast með fjölgun ýmiss konar starfsnámsbrauta. Hætt er þó við að sá áhugi sem fulltrúar atvinnulífsins hafa sýnt þeim ákvæðum frumvarpsins sem snúa að starfsnámi minnki ef ríkið sker á sama tíma niður fjármagn til framhaldsskólanna.
    Í frumvarpinu eru einnig ákvæði sem gera tilraunir með þriggja ára framhaldsskóla mögulegar, en að mati undirritaðs er afar æskilegt að sá kostur að útskrifa nemendur úr framhaldsskólum eftir þriggja ára nám verði kannaður rækilega á næstu árum og þannig undirbúnar þær almennu breytingar sem hljóta að verða á framhaldsskólanum til samræmis við það sem gerist í löndunum í kringum okkur og þar sem íslenskir stúdentar leita helst eftir háskólamenntun.
    Lögfesting frumvarps um framhaldsskóla felur í sér að til verður rammalöggjöf fyrir allt nám á milli grunnskóla og háskóla, þar með talda fullorðinsfræðslu og endurmenntun. Í ýmsum efnum er fyrirmynda leitað hjá öðrum þjóðum og í frumvarpinu er ýmislegt sem til framfara getur horft ef vel tekst til.
    Í frumvarpinu eru ýmis gagnrýnisverð ákvæði, svo sem að ekki er gengið tryggilega frá rétti nemenda til að sækja þann skóla sem heimasveitarfélag þeirra tekur þátt í kostnaði við vegna ákvæða um að nemendur skuli eiga rétt á að hefja nám án tillits til búsetu, kjarnaskólahugmyndin andspænis kostnaðarþátttöku sveitarfélaga og ákvæði 15. gr. um inntöku nemenda á einstakar námsbrautir. Einnig má gagnrýna að sveitarfélagi þar sem framhaldsskóli er byggður skuli gert skylt að leggja til lóð undir bygginguna án kvaða og gjalda. Þá er ekkert tillit tekið til gagnrýni á skipan skólanefnda eða faglegra áhrifa kennara varðandi samþykkt skólanámskrár o.fl.
    Fyrst og fremst eru það þó þær breytingartillögur meiri hlutans sem tengjast frumvarpi til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og meðferð þess máls, en undirritaður er algerlega andsnúinn því, sem gera það að verkum að undirritaður treystir sér ekki til að standa að sameiginlegu nefndaráliti og þar með styðja frumvarpið en mun greiða þeim breytingartillögum atkvæði sem hann telur að horfi til bóta.
    Svanfríður Jónasdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 30. apríl 1996.



Lúðvík Bergvinsson.